Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins, segir nauðsynlegt að utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefjist mánuði fyrir kjördag svo að sjómenn á frystitogurum geti nýtt atkvæðisrétt sinn. Að þessu sinni hafi utankjörfundaratkvæðagreiðslan hafist um þremur vikum fyrir kjördag..
Í tilkynningu sem Morgunblaðið fékk frá áhöfnun á frystitogurunum Málmey SK-1 og Arnari HU-1 segir að þeim sé gert ókleift að nýta kosningarétt sinn. „Utankjörfundaratkvæðagreiðslan var ekki byrjuð þegar skipið fór út á sjó í þessa veiðiferð og skipið verður ekki í landi aftur fyrr en eftir að kosningum er lokið. Okkur finnst lýðsræðislegur réttur okkar fótum troðinn með þessari framkomu þeirra sem stýra þessari kosningu,“ segir í yfirlýsingu frá skipverjum.
Þeir segja að fleiri skip séu í sömu stöðu. Hafa verði í huga að 27 menn séu á hverju skipi.
Sævar segir að sjómannasamtökin hafi oft í gegnum árin kvartað undan því að ekki væri gefinn nægilega langur tími í utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Það verði að hefja hana minnst mánuð fyrir kjördag. Þess hafi ekki verið gætt að þessu sinni.