Rekstraraðilar matsölunnar Hámu á Háskólatorgi Háskóla Íslands íhuga nú að skipta út stálhnífapörum og leirtaui fyrir einnota plastborðbúnað.
Ástæðan er sú að gríðarlegur fjöldi hnífapara, bolla og jafnvel diska hefur horfið á hverju ári síðan Háma hóf rekstur í húsnæðinu. Fjölmörg dæmi eru um að fólk hendi þessum hlutum í ruslið eftir notkun.
„Stálhnífapör, postulín og allt þannig hverfur eiginlega hraðar en maður nær að snúa sér við og við erum í stökustu vandræðum með þetta,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta í Morgunblaðinu í dag. „Við erum búin að vera með Hámu í þessu húsi í rúm þrjú ár. Á þessu tímabili höfum við þurft að endurnýja algjörlega eða kaupa nýjar birgðir af hnífapörum nokkrum sinnum hvern einasta vetur.“ Rebekka nefnir einnig að postulínsbollar hafi verið endurnýjaðir árlega.