Um 2.700 manns kusu utankjörfundar hjá sýslumanninum í Reykjavík í gær. Þetta er talsvert meira en kusu utankjörfundar daginn fyrir kjördag í síðustu alþingiskosningum vorið 2009.
Bryndís Bachmann, hjá sýslumanninum í Reykjavík, segir að biðraðir hafi myndast í Laugardalshöll þar sem kosningin fer fram. Hún áætlar að þegar mest var, milli kl.16-18, hafi fólk þurft að bíða í um hálftíma eftir að fá að kjósa. Hún reiknar með að biðraðir myndist einnig í dag, en opið er í Laugardalshöll til kl. 22 í kvöld.
Fyrir síðustu alþingiskosningar kusu 1.760 manns á fimmtudeginum fyrir kjördag hjá sýslumanninum í Reykjavík og 2.021 daginn fyrir kjördag. Fyrir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave, sem fram fór á síðasta ári, kusu 1.636 á fimmtudeginum fyrir kjördag og 1.960 daginn fyrir kjördag. Í gær kusu hins vegar yfir 2.700 hjá sýslumanninum í Reykjavík. Út frá þessum tölum má álykta að allt stefni í mjög góða kjörsókn á morgun þegar greidd verða atkvæði um Icesave-samninginn.