Eva Joly, þingmaður á Evrópuþinginu og fyrrverandi ráðgjafi sérstaks saksóknara, skrifar grein í breska blaðið Guardian í dag. Fyrirsögnin er „Iceland, fight this injustice“ - Ísland, berstu gegn þessu óréttlæti.
Greinin er birt á vefsíðu The Guardian og er efnislega samhljóða grein eftir Evu Joly sem birtist í Morgunblaðinu í dag og mbl.is greindi frá í morgun.
Í undirfyrirsögn greinarinnar á vefsíðu Guardian segir að þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardag gefi Íslendingum tækifæri til að ráðast gegn samsæri um að láta okkur öll (almenning) bjarga fjárfestum úr klípu.
Margir lesendur vefsíðu The Guardian höfðu skrifað athugasemdir við greinina og skiptust þær mjög með og á móti því að Íslendingar borgi fyrir Icesave-reikningana.