Borgarstjórastarfið eins og Tetris

Jón Gnarr líkti borgarstjórastarfinu við tölvuleikinn Tetris á fundi með …
Jón Gnarr líkti borgarstjórastarfinu við tölvuleikinn Tetris á fundi með starfsfólki ÍTR og skólastjórnendum í morgun. Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson

Að stýra höfuðborginni er eins og að spila Tetris að sögn Jóns Gnarr borgarstjóra. „Stundum verður þetta eins og í tetris þegar kubbarnir eru farnir að detta það hratt að maður ræður ekki við að setja þá þar sem maður ætlaði, þannig er tilfinningin." Jón situr nú fund með starfsfólki ÍTR og skólastjórnendum í Reykjavík.

Hann nefndi að hann þyrfti að vera eins vel og hann gæti inni í málefnum Orkuveitunnar, yfirfærslu á málefnum fatlaðra til borgarinnar, strætisvagnakerfinu og einnig sameiningarmál í skólakerfinu. „Það er ekki í mannlegu valdi að hafa algjöra yfirsýn á öllu, en ég er að reyna að auka skilning minn með fundum eins og þessum," sagði Jón.

„Mér finnst þetta ósanngjörn uppsetning að kalla einhverjar framkvæmdir gæluverkefni, vegna þess að það eru óskaplega fá slík verkefni," sagði Jón. Hann sagði sem dæmi að Harpan hefði oft verið nefnd í þessu samhengi og nú síðast Austurstrætið. Málið sé hinsvegar ekki svo einfalt. „Varðandi Austurstrætið þá er komið að viðhaldi, það er þannig að gatan hefur sigið út af umferðarþunganum sem hefur verið á henni og það eru alls konar lagnir þarna undir sem skemmast út af þessu sigi og með því að breyta Austurstrætinu í leiðinni í göngugötu erum að fyrirbyggja slíkar álagsskemmdir í framtíðinni, þannig að allt meikar þetta sens ef maður setur sig inn í það," sagði Jón.

„Við erum virkilega að reyna að finna allt, leita logandi ljósi að öllu sem meikar ekki sens og að láta eins og við séum ekki að gera það það er bara ekki rétt. Ég er búinn að heyra þetta orð, gæluverkefni, svo oft en það er bara grátlega lítið um slíkt, ég vildi óska þess að maður hefði meiri möguleika á að gera eitthvað sem gæti auðgað og fegrað mannlífið í Reykjavik og fólk gæti kallað gæluverkefni."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert