Rúmlega 57 prósent aðspurðra segjast myndu hafna nýjustu Icesave-lögunum ef þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram í dag en tæplega 43% myndu samþykkja lögin. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem MMR gerði fyrir vefsíðuna Andríki.
Stuðningur kjósenda ríkisstjórnarflokkanna við að samþykkja lögin er áberandi. Rúmlega 88 prósent kjósenda Samfylkingarinnar sögðust ætla að kjósa með lögunum og um 78 prósent kjósenda Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Andstaðan er mest meðal kjósenda Framsóknarflokksins en um 74 prósent þeirra sögðust myndu kjósa á móti lögunum. Um 70 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins sögðust myndu synja lögunum staðfestingar.
Hlutfallið milli kynjanna er hnífjafnt en athyglisverður er munurinn á svörunum eftir menntun fólks. Þannig segjast um 30 prósent þeirra sem aðeins hafa lokið skyldunámi ætla að samþykkja lögin en um 55 prósent þeirra sem hafa lokið háskólanámi. Könnunin var gerð dagana 4. til 7. apríl og úrtakið voru 944 einstaklingar á aldrinum 18 til 67 ára sem voru valdir með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá.
Í fréttum RÚV í gær var greint frá könnun Gallup þar sem 52 prósent sögðust ætla að greiða atkvæði gegn lögunum en 48 prósent vildu samþykkja þau.