Líklegt er talið að þrjár tillögur að ályktunum í Evrópusambandsmálum komi fram á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem hefst í dag.
Í umfjöllun um þingið í Morgunblaðinu í dag segir, að búist sé við að mestur stuðningur verði við harðorðustu tillöguna, sem gerir ráð fyrir því að flokkurinn hafni ESB-aðild Íslands og að aðildarviðræðum við ESB verði hætt.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins gera hinar tillögurnar ráð fyrir að ályktað verði um að viðræðuferlinu sem nú stendur verði lokið og eru þau Siv Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson talin standa að baki henni og loks er þriðja tillagan sögð koma frá málefnanefnd flokksins, sem feli það í sér að flokkurinn telji hagsmunum Íslands best borgið utan ESB.
Ekki er búist við því að mótframboð komi fram gegn formanni og varaformanni, en Vigdís Hauksdóttir mun þó hugleiða að bjóða sig fram gegn Birki Jóni Jónssyni varaformanni.