Tæplega 2600 manns hafa kosið utankjörfundar hjá sýslumanninum í Reykjavík í dag í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave. Rétt fyrir sjö í kvöld höfðu 23.638 greitt atkvæði utankjörfundar, þar af 14.570 í Laugardalshöllinni.
Samkvæmt Bergþóru Sigmundsdóttur, lögfræðingi hjá Sýslumanninum í Reykjavík, er þessi kjörsókn óvenju mikil. Margir kjósendur hafa þurft að bíða í biðröð í Laugardalshöllinni í dag.
Fyrir síðustu alþingiskosningar kusu 1.760 manns á fimmtudeginum fyrir kjördag hjá sýslumanninum í Reykjavík og 2.021 daginn fyrir kjördag. Fyrir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave, sem fram fór á síðasta ári, kusu 1.636 á fimmtudeginum fyrir kjördag og 1.960 daginn fyrir kjördag.
Opið verður í Laugardalshöllinni til tíu í kvöld. Þá stendur þeim sem ekki eru búsettir í Reykjavík það til boða að kjósa í Laugardalshöll milli tíu og fimm á morgun.