Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd eru ekki eins bjartsýnir og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á að forsendur fjárlaga haldi. Sagði hann forsendur virðast ætla að halda vel en fjárlaganefnd fór í fyrradag yfir nýja hagspá Hagstofunnar og áhrif hennar á forsendur fjárlaga.
„Í mínum huga eru fjárlög ársins úr skorðum gengin,“ segir Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Hann segir yfirlýsingu fjármálaráðherra einkennilega, svo ekki sé meira sagt, þar sem ein meginforsenda vaxtar í samfélaginu sé mæld í hagvexti en forsendur hans séu breyttar samkvæmt nýju hagspánni. Þá segir hann alla þætti fjárlaga sem varða kjarasamninga í uppnámi miðað við fréttir undanfarið.
„Forsendur spárinnar gera ráð fyrir ákveðnum hagvexti sem samt er óljóst hvaðan á að koma. Það er talað um að hann eigi að koma úr einkaneyslu. Ef eitthvað er þá er einkaneysla að fara í öfuga átt við það sem spáð er,“ segir Þór Saari, fulltrúi Hreyfingarinnar.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir mikla neikvæða óvissuþætti eins og skuldavanda heimila og fyrirtækja dragbít á hagvöxt. Þá verði farið hægar í stóriðjuframkvæmdir en talið var.