Tilboð Samtaka atvinnulífsins um launahækkanir er heldur rýrt miðað við samningstímann og atvinnumálapakkinn frá ríkisstjórninni er ekki til þess fallinn að langþráður viðsnúningur náist í efnahagslífinu. Ljóst er að ef þessi staða breytist ekki á næstu dögum þá mun krafan um skammtímasamning upp á nokkra mánuði fá byr undir báða vængi. Þetta er mat formanns Samiðnar á stöðu kjarasamninga.
„Við þurfum að sjá hvernig landið liggur á mánudaginn og sjá hvort það eru einhverjar forsendur fyrir því að halda áfram viðræðum á þessum grunni,“ sagði Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar. „Við teljum að ríkisstjórnin sé voðalega lítið að koma á móts við okkur. Hún er náttúrulega við stjórnvölin og við verðum bara að sætta okkur við hvernig hún vill koma að málum og taka afstöðu út frá því. Þá er lítið annað en skammtímasamningur í spilunum.
Við verðum að hafa trú á því að við séum eitthvað að byggja upp ef við ætlum okkur að fara að festa okkur í þriggja ára samningi. Þá erum við að horfa á atvinnumálin og efnahagsumhverfið í heild sinni. Við getum ekki verið að festa verkalýðinn í samningi til þriggja ára án þess að við séum að sækja neinar kjarabætur,“ sagði Finnbjörn.