Báðar breytingartillögurnar felldar

Frá flokksþingi Framsóknarflokksins.
Frá flokksþingi Framsóknarflokksins.

Báðar breytingartillögurnar, sem komu fram við ályktunardrög um utanríkismál á flokksþingi Framsóknarflokksins, voru felldar á þinginu síðdegis. 

Tillaga um að aðildarviðræðum við Evrópusambandið og aðlögunarferli verði hætt nú þegar var felld með 169 atkvæðum gegn 164 og tillaga um að  þjóðin eigi að taka upplýsta ákvörðun um stöðu Íslands í Evrópu, að undangengnum aðildarviðræðum var felld með 213 atkvæðum gegn 112.

Í aðaltillögunni, sem síðan var samþykkt með miklum meirihluta á flokksþinginu, stendur að Framsóknarflokkurinn telji hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins:

„Ísland skal áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld tryggt hagsmuni Íslands best á hverjum tíma. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Nú sem fyrr standa auðlindir þjóðarinnar undir velferð hennar og fullt og óskorað forræði á þeim er forsenda farsældar til framtíðar. Framsóknarflokkurinn telur að þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu og mun berjast fyrir þeim rétti."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert