Hægir aðeins á kjörsókn

Kjósendur í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.
Kjósendur í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Svo virðist sem það heldur hafi hægt á kjörsókn nú eftir hádegi, en hún telst þó enn nokkuð mikil. Í Norðvesturkjördæmi hafa 34% kosið, en 21.314 eru þar á kjörskrá. Á Akureyri hafa 30,56% kosið eða 4012 af þeim þrettán þúsund sem eru á kjörskrá.

Annars staðar í Norðausturkjördæmi er kjörsókn þannig að í Norðurþingi er hún 29,6%, í Fjarðabyggð 25,95% og í Fjallabyggð hafa 523 af 1598 kjósendum komið á kjörstað.

Í Suðurkjördæmi hafa 32,4% af 32.955 greitt atkvæði. Það mun vera svipað og á þessum tíma í síðustu Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslu, en heldur minna en í síðustu alþingiskosningum.

Kjörsókn í Suðvesturkjördæmi kl. 15:00 var orðin 31,2% og höfðu 18.896 manns þá kosið. Í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu 2010 höfðu 18.791 kosið á sama tíma eða 31,7%. Í Alþingiskosningum 2009 höfðu  21.095 kosið eða 36,2% klukkan 15.00 og árið 2007 höfðu 18.371 kosið eða 33,7%. Árið 2003 höfðu 18.141 kosið klukkan 15.00 eða 33,2%.

Um 12.500 voru búnir að kjósa í Reykjavíkurkjördæmi norður klukkan 15.00 í dag og samsvarar það 28,3%. Kjörsókn hefur verið nokkuð jöfn yfir daginn í kjördæminu. 

Í Reykjavíkurkjördæmi suður höfðu 13.742 kosið klukkan 15.00 eða 30,91%. Til samanburðar má nefna að í alþingiskosningunum 2009 höfðu 36,7% kosið á sama tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert