Margir falla í loftárásum á Gaza

Ísraelsmenn halda áfram loftárásum á Gaza og hafa meira en 30 fallið í þeim. Fólk flýtti sér með særð börn á sjúkrahús þegar loftárásunum linnti.

Alls eru 32 palestínumenn fallnir í þessari árásahrinu og virðist ekkert lát á árásunum gegn Hamas og öðrum herskáum hópum. Þeir hafa skotið eldflaugum á yfirráðasvæði Ísraelsmanna. 

Í gær og í fyrradag féllu samtals fjórtán íbúar Gaza. Embættismenn segja að sprengjuregnið undanfarið sé svar við því þegar Hamas-liðar skutu eldflaug á skólarútu á fimmtudaginn var. Unglingur sem var í rútunni og bílstjóri hennar slösuðust.

Hamas lýsti ábyrgð sinni á því að hafa skotið eldflauginni en baðst afsökunar á því að hafa skotið á bíl sem flutti börn. Ómannaðar flugvélar Ísraelsmanna flugu yfir Gazasvæðið fram í myrkur á föstudagskvöld. 

Ísraelsher segir árásirnar beinast gegn tveimur hryðjuverkasveitum Hamas, flugvellinum á Gaza og jarðgöngum sem notuð eru til smygls undir landamæri Egyptalands og Gaza.

Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið leita leiða til að binda endi á þessa síðustu ófriðaröldu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert