Allt bendir til þess, að Icesave-lögin hafi verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag með yfirgnæfandi meirihluta. Samkvæmt tölum úr fjórum kjördæmum sögðu nærri 63% nei en 37% já.
Þegar talin höfðu verið 8150 atkvæði í Suðvesturkjördæmi höfðu 3400 eða 42,2% sagt já en 4650, eða 57,8% sagt nei. 100 atkvæði voru auð eða ógild.
Í Norðvesturkjördæmi voru birtar tölur þegar búið var að telja 2000 atkvæði. 685, eða 34,8%, sögðu já en 1284, eða 65,2% sögðu nei.
Í Norðausturkjördæmi höfðu verið talin 3000 atkvæði. 1201 eða 40,5% sögðu já en 1761, eða 59,5% nei.
Í Suðurkjördæmi höfðu verið talin 5318 atkvæði. 1501, eða 28,5% sagði já en 3760, eða 71,5% sögðu nei.