Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í Sjónvarpssal í kvöld, að samningaumleitanir um Icesave-málið væru komnar á endastöð. Nú sé samningaleiðin lokuð.
Steingrímur sagði, að fyrri ríkisstjórn og fyrra þing hefði mótað þá stefnu, að skást væri að leysa þetta mál með samningum. Þáverandi forustumenn Íslendinga, þeir Geir H. Haarde, Árni M. Mathiensen og Davíð Oddsson hefðu heitið Alþjóðagjaldeyrissjóðnum því að reynt yrði að semja. Þessari stefnu hefðu nýtt þing og ný ríkisstjórn haldið áfram og búið væri að eyða óhemju fjármunum, tíma og orku í þetta, „og nú er komið að endastöð."
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að ef þessi niðurstaða í kosningunni væri áfall fyrir ríkisstjórnina væri hún einnig áfall fyrir Alþingi sem hefði samþykkt Icesave-lögin með um 70% mun.
Sagði hún að kosningin hefði klofið þjóðina í tvennt og það þyrfti að ná sáttum um hvernig unnið væri úr þeirri stöðu, sem nú sé komin upp.
Jóhanna sagði, að það hefði verið sérstakt að þetta mál skyldi hafa farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og það þekktist hvergi nema á Íslandi að kosið sé með þessum hætti um fjárhagsmálefni og alþjóðaskuldbindingar.