Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í Sjónvarpssal að fyrstu tölur, sem birtar hafa verið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin valdi vissulega miklum vonbrigðum.
Samkvæmt tölum, sem birtar hafa verið úr fjórum kjördæmum, sögðu 62% nei en 38% já.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að þetta væri meiri munur en hann hefði átt von á en hann hefði verið dauðhræddur um það allan tímann, að þetta mál myndi tapast.
„Þetta var erfitt mál, það er til svo mikils mælst að fólk samþykki ófögnuð af þessu tagi," sagði Steingrímur.
„Það er greinilegt að þjóðin er á móti því að leiða þetta mál til lykta á grundvelli samnings," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann sagðist hafa haft þá afstöðu í málinu að fylgja sannfæringu sinni en hann hefði viljað að þjóðin fengi að hafa síðasta orðið. „Þetta snýst ekki um mig," sagði hann.
„Það skiptir verulegu máli hve afgerandi niðurstaðan er," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann sagði að Íslendingar væru prinsipmenn og ekki væri hægt að hræða þá til niðurstöðu.
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að þessar tölur væru svipaðar og hún hefði búist við.