Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ segist hafa áhyggjur af lánshæfismati Íslands, verði Icesave lögin ekki samþykkt. Hann segir að fyrstu tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni hafi ekki komið sér mjög á óvart, því kannanir hafi verið á þessum nótum.
„Ég hef heilmiklar áhyggjur af lánshæfismati okkar og aðgangi Íslands að lánum. Moody´s mun endurmeta lánshæfi okkar eftir helgina,“ sagði Gylfi í samtali við mbl.is, þegar fyrstu tölur voru komnar úr öllum kjördæmum nema Reykjavík.
„Orkufyrirtækin hafa verið í vandræðum með að fá lán vegna þessa og það liggur fyrir að verði þetta niðurstaðan, þá mun uppbyggingunni í samfélaginu seinka.“
Gylfi segir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar geti haft afgerandi áhrif á forsendur kjarasamninga. „Verði niðurstaðan sú að lögin verði felld, þá leiðir það til þess að sá hagvöxtur, sem gert var ráð fyrir, verður talsvert minni. Við höfum gert ráð fyrir því í öllum okkar viðræðum að þetta yrði samþykkt. Við verðum að endurskoða það og verðum að byrja upp á nýtt, því allar forsendur hafa breyst.“