Árni Þór Sigurðsson, formaður þingflokks VG, segir að ákvörðun um að láta fara fram kosningu um formann þingflokksins í dag hafi verið tekin í október sl. þegar kosningu stjórnar þingflokksins var frestað að beiðni Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur.
Guðfríður Lilja var formaður þingflokksins á síðasta kjörtímabili. Eftir að hún fór í fæðingarorlof gegndi Árni Þór, varaformaður þingflokksins, starfinu í hennar forföllum.
„Það var ákveðið í október sl. að gera þetta með þessum hætti núna. Það stafar af því að í þingflokki VG eru sérstakar samþykktir sem segja að stjórnin skuli kosin á aðalfundi þingflokksins sem skal vera haldinn í upphafi þings á hverju ári, þ.e. frá 1. október til jafnlengdar að ári,“ sagði Árni Þór.
„Á aðalfundi okkar um mánaðamótin september/október í haust kom að því að kjósa stjórn og þá var Guðfríður Lilja farin í fæðingarorlof. Hún kom á fundinn og óskaði eftir því að það færi ekki fram kosninga stjórnar meðan hún væri í fæðingarorlofi og á það var fallist. Það var bókað að kosningu stjórnar yrði frestað þangað til hún kæmi úr fæðingarorlofi, samkvæmt hennar ósk.“
Guðfríður Lilja kom úr fæðingarorlofi á föstudaginn og í dag var boðaður þingflokksfundur til að ræða um Icesave. Árni Þór sagði að það væri fullkomin tilviljun að fæðingarorlofi hennar hefði lokið á sama tíma og kosning um Icesave hefði farið fram. Það hefði því verið eðlilegt að kosningin færi fram á fyrsta fundi eftir að Guðfríður Lilja kæmi úr fæðingarorlofi enda hefði kosningunni verið frestað í samræmi við hennar ósk.
Árni Þór var spurður hvers vegna hefði verið talin ástæða til að skipta um formann í þingflokknum. „Það er þannig að ég hef gegnt þessari stöðu allt þetta þing. Ég hef unnið alla vinnuna og borið alla ábyrgð á þingflokknum og skipulagt starf hans allt þetta þing og það eru aðeins tveir mánuðir eftir af þinginu. Mörgum fannst eðlilegt að ég kláraði þetta þing og síðan verður kosið aftur í haust eins og lög gera ráð fyrir.“
Árni Þór sagðist ekki líta á þetta sem aðför að Guðfríði Lilju eða eitthvert vantraust á hana. „En það hlýtur samt alltaf að vera þannig að sá sem gegnir trúnaðarstörfum eins og þessari fyrir þingflokk þarf að hafa til þess traust. Ef meirihluti þingflokksins vill hafa þennan hátt á þá er honum frjálst að gera það.“