Fráleitt að Sjálfstæðisflokkurinn sé að klofna

Bjarni Benediktsson í Silfri Egils í dag.
Bjarni Benediktsson í Silfri Egils í dag.

„Það er fráleitt að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé að klofna," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í Silfri Egils í dag.

Egill Helgason, sagði í þættinum við Bjarna, að staða hans hefði greinilega veikst við niðurstöðuna í gær í ljósi þess að Bjarni og meirihluti þingflokksins samþykkti Icesave-lögin á Alþingi. 

„Þeir sem voru á móti þér hafa yfirburðasigur og á bak við þetta er fyrrverandi formaður flokksins, hann er þarna að véla um á sínu blaði. Það dylst engum að flokkurinn er í tætlum," sagði Egill og bætti við að flokkurinn væri dæmdur til að klofna. 

Bjarni sagði langt í frá, að flokkurinn væri í tætlum. Hann hefði bætt við sig 50% fylgi frá síðustu kosningum og verið í mjög mikilli sókn. 

Hann sagði að landsmálin væri komin í slíkar ógöngur með núverandi stjórnarforustu að það þurfi að kjósa nýtt þing. Í fyrri kosningum hafi verið kosið um fortíðina en nú þurfi að kjósa um framtíðina. Ríkisstjórninni hefði algerlega mistekist að  leggja grunn að sátt, sem hún væri alltaf að tala um vegna þess að hún setti stöðugt á dagskrá sundrunarmál, á borð við Evrópusambandsmálið, stjórnlagaþing og breytingar á stjórn fiskveiða.

Tímabært að taka á móti

„Það er kannski mál til komið, að taka aðeins á móti ykkur," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. „Hafið þið einhverja tryggingu fyrir því að þetta hefði gengið betur þótt þið, snillingarnir, væruð þarna? Bendir eitthvað til þess úr fortíðinni?" sagði Steingrímur og sagði að ríkisstjórnin hefði þurft að taka óvinsælar ákvarðanir.

Bjarni sagði að Steingrímur væri að gera nákvæmlega það sem kæmi honum best, að forðast kosningar.

„Bjarni, vilt þú bara ekki leggja fram vantrauststillögu á mánudag?" sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra þá. Bjarni sagði, að það kæmi til greina að flytja vantrauststillögu þótt hann væri ekki að boða slíka tillögu nú. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að það kæmi vel til greina að leggja fram vantrauststillögu, ekki vegna Icesave-málsins heldur  öllu hinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert