Niðurstaða Icesave þjóðaratkvæðagreiðslunnar styrkir stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í formannsstóli Framsóknarflokksins.
Að sama skapi veikir niðurstaðan stöðu Bjarna Benediktssonar innan Sjálfstæðisflokksins. Átakatímar eru framundan innan ríkisstjórnarinnar. Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
„Líklega mun ríkisstjórnin sitja sem fastast með sinn tveggja manna meirihluta. En það eru átakatímar framundan innan stjórnarinnar. Icesave málið er samtengt inngöngu okkar í ESB og nú erum við að fara lengra inn í samningaferlið við ESB og það er viðbúið að ýmislegt valdi þar titringi, “sagði Stefanía.
Hún segir að hafa beri í huga að samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn grundvallist meðal annars á því að Icesave deilan verði leyst. „Það verður afskaplega erfitt fyrir ríkisstjórnina að halda haus í þeim samskiptum.“
Stefanía segir að framundan séu miklir umbrotatímar. „Nú kemur í ljós hvort þinglið Vinstri grænna sé staðfast og hugsanlega gæti farið að bresta á flótti innan Samfylkingarinnar. Þegar á brattann er að sækja í stjórnmálum, þá fer oft hver höndin upp á móti hvorri annarri og þetta bætist bara ofan á allan ESB-ágreininginn.“
„Það er afar ólíklegt að stjórnin geti haldið út kjörtímabilið, þetta er spurning um vikur eða mánuði.“
En hvaða áhrif gæti niðurstaðan haft á Sjálfstæðisflokkinn? „Það er ekki gott að segja það, en skoðanakannanir hafa sýnt að meirihluti flokksmanna hefur ekki sömu afstöðu til Icesave og formaðurinn. Það er óhætt að segja að niðurstaðan hefur ekki styrkt stöðu hans og hann á andstæðinga, sem eiga eftir að sækja að honum. En staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, hefur aftur á móti styrkst heilmikið við þessa niðurstöðu. “