„Maður var farinn að búast við þessu undir það síðasta. Það er mitt mat að það hefði verið skynsamlegt að ljúka þessu með samningum. En úr því sem komið er verða menn að snúa bökum saman og gæta hagsmuna Íslands," segir Lárus Blöndal, hæstaréttarlögmaður, sem sat í samninganefnd Íslands um Icesave-málið.
- En hvað segir Lárus, sem var í kjölfar fyrri Icesave-samninga ötull talsmaður fyrir málsvörn Íslendinga í málinu, um framhaldið? Er hann bjartsýnn á það sem tekur við?
„Ég hef alltaf haldið því fram okkur beri ekki skylda til að borga þetta. Það hefur ekkert breyst. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að það er áhætta í þessu.
Fyrst og fremst voru það viðbrögð umhverfisins, Evrópusambandsþjóða og Norðurlandaþjóða og það hvernig þetta mál hefur þróast, sem fékk mann til að líða betur með að ljúka málinu með tiltölulega góðum samningi, en að ljúka því með dómsmáli. En nú þurfa Íslendingar að nota öll þessi rök, meðal annars þau sem við Stefán Már Stefánsson höfum gert grein fyrir, og reyna að hafa sigur í málinu. Ekkert annað kemur til greina," segir Lárus.
Fyrsta verkið verður að svara áminningarbréfi ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, sem hún sendi íslenskum stjórnvöldum í maí í fyrra. Þá gaf hún tveggja mánaða frest til að svara en tók jafnframt fram að ef málið yrði leyst með samningum tæki stofnunin ekki til frekari aðgerða.
Í bréfinu sagði stofnunin Ísland skuldbundið til að greiða lágmarkstrygginguna í samræmi við tilskipun um innstæðutryggingar, en brotið hefði verið gegn henni með því að gera greinarmun á innistæðueigendum í íslenskum útibúum banka og útibúum þeirra erlendis.
Lárus segist telja að bréfinu verði svarað mjög fljótlega, enda vinna við það langt komin. ,,Það liggur ekki fyrir ákvörðun hjá ESA. En miðað við efni bréfsins er líklegt að þetta verði niðurstaðan. Fari þetta í framhaldinu fyrir EFTA-dómstólinn myndi ég halda að hann skili niðurstöðu fyrir lok næsta árs, jafnvel fyrr.
- En hver eiga að vera skilaboð okkar Íslendinga til umheimsins í framhaldi af þessari niðurstöðu?
„Það er skynsamlegt að leggja áherslu á það, sem ég hef heyrt að bæði ríkisstjórnin og forsetinn eru að gera, að auðvitað munu menn fá greitt út úr búinu miklar fjárhæðir. Alls ekki má túlka þetta þannig að Bretar og Hollendingar sitji uppi með þetta tjón að fullu, eins og kannski má skilja sumar umsagnir í erlendum fjölmiðlum.
Síðan þarf auðvitað að gera grein fyrir því að við séum ekki að hafna því að efna okkar skuldbindingar, heldur fremur það að við viljum láta skera úr um hverjar þær eru. Við erum í raun að fara þá leið sem réttarkerfið gerir ráð fyrir. Ekki á að sjá þetta í neinu öðru ljósi," segir Lárus.
Hann segir það skipta gríðarlegu máli í deilunni sem framundan er, að allar kröfur vegna Icesave hafi verið gerðar að forgangskröfum. Það takmarki mögulegt tjón Íslendinga af málinu, en geri einnig ásýnd okkar gagnvart umheiminum mun betri. Á sama tíma og málið verður rekið fyrir dómstólum verði háar fjárhæðir greiddar til Breta og Hollendinga.
„Það hefði ekki gerst nema vegna þess að þetta eru orðnar forgangskröfur í búið. Þannig að bæði móralskt og lögfræðilega skiptir þetta gríðarlegu máli, að gripið var til þessara ráðstafana á sínum tíma."
Lárus segir tvímælalaust hægt að svara áminningarbréfi ESA með sterkum lagarökum.
„Ég var alveg ósammála þessari uppstillingu í bréfinu. Menn eru annars vegar að byggja á því að það sé ríkisábyrgð á innistæðum, eða ,,obligation of result" sem þeir kalla, það er bara annað orð yfir ríkisábyrgð. Ég tel að það eigi ekki við nein rök að styðjast og sé reyndar beinlínis í ósamræmi við samkeppnisreglur Evrópusambandsins sjálfs. Því ef um slíka ábyrgð væri að ræða þá væri samkeppnisstaða banka mjög ójöfn eftir því hvaða land væri bakhjarl hvers banka.
Hægt er að taka sem dæmi að menn vildu þá miklu frekar eiga viðskipti við banka sem hefði þýska ríkið sem bakhjarl, en þann banka sem hefði íslenska ríkið á bak við sig. Þar með er komin upp sú staða að menn geta ekki keppt á jafnræðisgrundvelli.
Svo er hitt sem varðar það að menn hafi brotið gegn jafnræðisreglu. Maður er hræddari við þann hluta málsins. En það er hægt að færa rök fyrir því að þetta hafi verið eðlileg aðgerð og að hún byggist á neyðarréttarsjónarmiðum sem hafi verið til staðar á þessum tíma. Þetta er þó veikari hlutinn af málinu frá okkar sjónarhóli.“
- Er vandasamt mál að færa rök fyrir neyðarrétti og skortir kannski reynslu af því meðal íslenskra lögfræðinga?
„Ég held að það sé nú töluvert af góðum mönnum til þar. Þetta er engin sérstök grein innan lögfræðinnar, en auðvitað verður leitað eftir ráðgjöf eftir því sem þurfa þykir. Hagsmunirnir eru það miklir að það hlýtur að borga sig. Auðvitað kostar erlend ráðgjöf mikið, en það getur líka verið mjög dýrt að neita sér um hana. Varðandi neyðarréttarsjónarmiðin tel ég þó ekki endilega meiri þörf á erlendri ráðgjöf þar en um aðra þætti málsins.
Sem betur fer, þá lenda menn ekki oft í svona áföllum . Auðvitað er það þannig að hægt er að deila um það hversu langt menn eiga að ganga í svona stöðu. Var til dæmis nauðsynlegt að tryggja allar innistæður? Eða hefði átt að tryggja aðeins lágmarksinnistæðurnar, eða upp að einhverri annarri fjárhæð?"
Hefur verið komið að máli við þig um að koma meira að þessu máli?
„Nei, það er ekki. Og ég býst ekki við því að svo verði," segir Lárus.