Framsóknarflokkurinn vill „raunverulegan aðskilnað framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Styrkja þarf stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu þannig að sjálfstæði Alþingis sé raunverulegt,“ segir í ályktun flokksins um innanríkismál.
Flokksþingi Framsóknarflokksins 2011, sem hófst á föstudag, lýkur í dag. Í ályktuninni kemur einnig fram að flokkurinn sé hlynntur persónukjöri og að vægi atkvæða „sé svo jafnt sem kostur er. Við höfnum því alfarið að landið verði gert að einu kjördæmi.“
Framsóknarflokkurinn vill styðja við kirkju og kristni. „Þjóðin þekkir rætur sínar, menningararf og þau siðrænu gildi sem hún hefur byggt samfélag sitt á um aldir. Þessi siðrænu gildi eru að miklu leyti sprottin úr kristnum jarðvegi enda hefur kristin kirkja haft mótandi áhrif á menningu þjóðarinnar undanfarin þúsund ár. Við viljum að áfram verði stutt við öflugt starf þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga,“ segir m.a. í ályktuninni.
Ályktun Framsóknarflokksins um innanríkismál