Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði á blaðamannafundi á Bessastöðum í dag, að það gæti orðið flókið fyrir Breta og Holllendinga að fara í mál við Íslendinga vegna Icesave-málsins.
„Í dag tala allir, sem betur fer, einum rómi um að (Bretar og Hollendingar) muni fá að minnsta kosti yfir 1000 milljarða króna. (...) Það er auðvitað risavaxin upphæð út frá stærðargráðu Íslands, og þess vegna er óþarfi fyrir okkur hér heima, að tala þannig eins við séum samviskulaust fólk sem ætlar ekki að borga neitt," sagði Ólafur Ragnar.
Hann sagði að á endanum verði á endanum verði borguð út úr þrotabúi Landsbankans stærstu upphæð, sem sé að finna í sögu Íslands. Sú upphæð verði borguð til Breta og Hollendinga til að þeir geti síðan dreift henni áfram til þeirra, sem þar eiga hlut að máli.
„Deilurnar hafa staðið um vextina og svo túlkanir á regluverki Evrópusambandsins. En það er ekki bara vandamál fyrir okkur, það er líka gríðarlegt vandamál fyrir Evrópusambandið. Og þegar menn eru að velta því fyrir sér hvort Bretar og Hollendingar fari í mál eins og sumir segja og telja alveg gulltryggt, þá skulum við átta okkur á því að það getur orðið flókið fyrir Breta og Hollendinga að fara í mál út af þessu atriði á þessum tímum þegar evrusvæðið og peningakerfi Evrópu er nánast allt í óvissu. Þeir væru nú að taka gríðarlega áhættu með því að fara í mál undir þessum kringumstæðum og að því leyti má segja, að sú ógæfa, sem nú ríður yfir evrusvæðið, hafi orðið okkur til hagsbóta hvað þetta snertir, að það er miklu meira hættuspil fyrir Breta og Hollendinga að fara í mál vegna þess að í því máli mun ekki ráðast bara hvað snýr að Íslandi. Í því máli mun ráðast hvað snýr að öllu peningakerfi Evrópu," sagði Ólafur Ragnar.
Hann sagðist enga trú hafa á því, að Bretar og Hollendingar eða Evrópusambandið grípi til refsiaðgerða gagnvart Íslendingum.