Þarf að vinna að málsvörn Íslands

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir ræða við Jóhönnu Vigdísi …
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir ræða við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann, í sjónvarpssal.

Forustumenn ríkisstjórnarinnar sögðu í kvöld að nú væri það verkefni framundan að vinna að málsvörn Íslands vegna þeirra málaferla, sem væntanlega væru framundan miðað við að Icesave-lögin hafi verið felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í Sjónvarpssal að hann hefði þegar gert drög að yfirlýsingu og svara þyrfti Eftirlitsstofnun EFTA, (ESA) sem hefur lýst því áliti, að Ísland hafi brotið gegn EES-samningnum með því að uppfylla ekki greiðsluskyldu samkvæmt evrópska innistæðutryggingakerfinu.

„Við þurfum að vanda samskipti okkar við önnur ríki og erlenda fjölmiðla. Við virðum niðurstöðu kosninganna og vinnum úr stöðunni og gætum réttar okkar. Þetta er ekkert flókið," sagði Steingrímur.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði við Sjónvarpið að ríkisstjórnin þurfi að verja hagsmuni Íslands af krafti í þessu máli. Svara þurfi því bréfi, sem ESA sendi í fyrra en Árni Páll sagðist myndu hafa samband við forseta ESA strax eftir helgi.

Svo muni málið væntanlega fara fyrir dóm og halda þurfi fram málstað Íslands og útskýra að ekki sé greiðsluskylda af Íslands hálfu.

„Við sem þjóð stöndum á ákveðnum tímamótum," sagði Árni Páll. Íslendingar verði að fara að ná saman um leiðina áfram, læra af mistökunum og ganga í takt. Þá verði þjóðin að vinna að málsvörn, sem sé sanngjörn og heiðarleg og sýni umheiminum bestu hlið Íslendinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert