Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir niðurstöðu Icesave-atkvæðagreiðslunnar ekki hafa nein áhrif á stöðu ríkisstjórnarinnar. Kosningin hafi ekki snúist um stjórnina, hún hafi þingmeirihluta og ekkert bendi til þess að hún sé að tapa honum. Er líklegt að fram komi vantrauststillaga?
,,Innan stjórnarandstöðunnar hafa ekki komið fram kröfur um að ríkisstjórnin fari frá og boðað verði til kosninga," segir Össur. ,,Hreyfingin hefur ítrekað sagt að það sé ekki tímabært. Formaður Framsóknarflokksins hefur sagt að það fari eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar og hvernig hún nái að tala fyrir hagsmunum þjóðarinnar. En ekki út af Icesave, það sagði hann skýrt.
Meðan ríkisstjórn hefur meirihluta til að koma fram málum sínum er heilbrigðisástand hennar gott. Það er bara einn maður sem hefur sett fram kröfur um kosningar og það er formaður Sjálfstæðisflokksins og ég held að það tengist hans eigin pólitíska heilbrigði. Enginn hefur jafn mikla þörf fyrir að komast í kosningar til að breiða yfir innanflokksátök eins og formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég vildi óska að Sjálfstæðisflokkurinn hefði kjark til að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina," svarar utanríkisráðherra.
,,Ég tel að það væri pólitískt rökrétt af Sjálfstæðisflokknum [að leggja fram vantrauststillögu] eins og forysta hans hefur talað síðustu daga og hlaupið sjálf frá sínum þætti í þessu máli og sett það yfir á ríkisstjórnina. En hann þorir það ekki."