Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í sjónvarpsumræðum í kvöld, að hugsanlega þurfi að kjósa til þings á hverju ári ef núverandi forseti Íslands situr áfram í embætti.
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður, sagði í sjónvarpsumræðunum að forseti Íslands hefði bent á það, þegar hann synjaði Icesave-lögunum staðfestingar, að enn sæti sama þing og hefði samþykkt fyrri Icesave-lögin, sem hafnað var í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra.
„Er það kannski ókostur, að það hafi ekki verið kosið í millitíðinni?" spurði Jóhanna Vigdís.
„Við þurfum kannski að fara að skipta ansi oft um þing ef þessi forseti situr áfram," sagði Steingrímur þá og sagðist raunar ekki hafa skilið þessi ummæli forsetans.
„Þannig að við þurfum að fara að kjósa annað hvert ár til þings eða jafnvel árlega vegna þess að þingið sé orðið umboðslaust ef forsetinn beitir þessu valdi."