Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna í Sjónvarpinu í kvöld, að stjórnarflokkarnir hefðu ekki treyst fólkinu í landinu til að leiða Icesave-málið til lykta.
Þetta væri sá grundvallarmunur, sem væri á afstöðu hans og þeirra sjálfstæðismanna, sem studdu Icesave-lögin á Alþingi, og forustu ríkisstjórnarinnar.
„Þau eru raunar í svo vondum málum í þessu Iceave-máli og í viðræðum við önnur ríki, að önnur ríki treysta sér ekki einu sinni til að ræða við þau. Þannig leið árið 2010 að Bretar og Hollendingar sögðu: Á Íslandi er ríkisstjórn sem ekki er hægt að ræða við. Þannig að ríkisstjórnin er auðvitað að fá rassskellingu með sína stefnu," sagði Bjarni. „Það er alveg svakalegur dómur yfir afstöðu Jóhönnu og Steingríms í þinginu sem ekki treystu fólkinu í landinu, að fá þessa niðurstöðu."
Bjarni sagðist vilja þingkosningar strax vegna þess að hér væri vond ríkisstjórn. Sagðist hann vera sannfærður um að margir hefðu mætt á kjörstað í dag lýst yfir vantrausti sínu á störfum ríkisstjórnarinnar.
Hann sagði aðspurður, að hann væri auðvitað ekki ánægður með að það væri jafn mikil óeining um Icesave-málið innan Sjálfstæðisflokksins, og raun bæri vitni, en ekki væri auðvelt að bregðast við þeirri stöðu. Sjálfur sagðist Bjarni hafa fylgt sannfæringu sinni og talið að rétt væri að ljúka málinu með samningnum. Hins vegar hefði verið ljóst að skiptar skoðanir væru innan flokksins og af þeirri ástæðu hefði hann talið mikilvægt að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist sammála því að kjósa ætti strax og vegna þess að það væri pattstaða í íslenskum stjórnmálum; það væri ekkert að gerast.
Sigmundur Davíð sagði, að framhaldið réðist af því hvort ríkisstjórnin sættist á að framkvæma vilja meirihlutans og tala máli landsins út á við. Sér litist hins vegar ekkert á viðbrögð leiðtoga ríkisstjórnarinnar nú.
Margrét Tryggadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist skynja það mjög sterkt að gjá væri milli þings og þjóðar í Icesave-málum og fleiri málum. Þjóðin væri varla farin að gera hrunið upp.