Yfir 50 útköll á Akranesi

Bíleigandi nokkur hafði bundið bílinn sinn við hús í dag, …
Bíleigandi nokkur hafði bundið bílinn sinn við hús í dag, svo hvorki bíllið né húsið færi langt. Ljósmynd/Kristinn Eyjólfsson

Uppfært kl. 23.50

Erilsamt var hjá flestum lögregluembættum á Suðvesturhorni landsins í dag, fyrir utan öll þau útköll sem björgunarsveitir þurftu að sinna. Björgunarsveitin á Akranesi sinnti um það bil fimmtíu útköllum á meðan óveðrið gekk yfir frá því klukkan fjögur í dag og fram á kvöld. Lögreglan sinnti um fimmtán verkefnum.

Að sögn lögregluþjóns á vakt gerði vitlaust verður á Skaganum. Mesta tjónið var þegar þakklæðning fauk af bílskúr á næsta hús. Í öðru tilviki fór næstum hálft þak af einbýlishúsi í bænum, svo mikið rifnaði upp af því. Þá splundruðust rúður í raftækjaverslun. Fyrir utan þessi alvarlegustu atvik varð mikið tjón á húsum og bílum.

Lögreglan í Reykjavík sinnti ýmsum útköllum, rétt eins og slökkviliðið sem kallaði út aukamannskap til að sinna verkefnum. Víðast hvar er veðrinu nú mjög að slota og veður orðið skaplegt.

Lögreglan á Suðurnesjum sinnti um 20 útköllum fyrir utan það sem björgunarsveitin sinnti. Á Selfossi mæddi hins vegar lítið á lögreglunni þó svo björgunarsveitin væri á ferli. Í Vestmannaeyjum hins vegar kom ekki eitt útkall til lögreglu vegna óveðurs og að sögn varðstjóra þar var björgunarsveitin ekki einu sinni ræst út.

Veður var slæmt víðar en á SV-horninu, en hátt í sjötíu manns á leið á milli Akureyrar og Reykjavíkur ákváðu að hætta för sinni í kvöld og fylltist allt í sumarhúsum Glaðheima við Blönduós, að sögn staðarhaldarans Lárusar Jónssonar. Að hans sögn hafði rúta ein full af fólki líka staðnæmst á Blönduósi og fólkið afráðið að fá að gista í íþróttahúsinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka