Á ekki 26 milljarða inni á bankabók

Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist á Alþingi í dag ekki kannast við að það væru 26 milljarðar króna inni á bankabók hjá sér þótt Icesave-lögin hefðu verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardag.

Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir að greiða 26 milljarða króna í vexti vegna vegna Icesave.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Steingrím á Alþingi í dag, hvort til greina kæmi, að nota þessa 26 milljarða í mannaflsfrekar framkvæmdir, t.d. Búðarhálsvirkjun eða samgöngumannvirki. 

„Varðandi þessa 26 milljarða, sem framsóknarmenn fundu um helgina þá veit ég ekki af þeim; ég held að þeir séu ekki inni á bankabók hjá mér neinstaðar," sagði Steingrímur.

Hann sagði, að til hefði staðið að nota þá fjármuni, sem voru í Tryggingarsjóði innistæðueigenda til að greiða vextina og síðan hefði ríkið þurft að bæta við því sem vantaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka