Á skjön við jafnréttisstefnuna

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson á Alþingi. Úr …
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson á Alþingi. Úr myndasafni. mbl.is/Ómar

Femínistafélag Íslands harmar fækkun kvenna í valda- og áhrifastöðum innan VG og segir þá ákvörðun að víkja Guðfríði Lilju Grétarsdóttur úr embætti þingsflokksformanns ekki í anda núgildandi fæðingarorlofslaga og hljóta að vera á skjön við stefnu Vinstri Grænna í jafnréttismálum.

Í tilkynningu frá Femínistafélaginu segir orðrétt:

„Sú ákvörðun að víkja Guðfríði Lilju Grétarsdóttur úr embætti þingsflokksformanns þegar hún kom til baka úr fæðingarorlofi er ekki í anda núgildandi fæðingarorlofslaga og hlýtur að vera á skjön við stefnu Vinstri Grænna í jafnréttismálum. 

Þrátt fyrir að Vinstri Grænir kenni sig við kvenfrelsisstefnu og kynjahlutföll í þingflokkinum séu nánast jöfn, þá virðist öðru gilda þegar valdastólum er úthlutað.

Foreldrar eiga að geta gengið að störfum sínum vísum þegar fæðingarorlofi lýkur. Öðrum kosti er stoðum kippt undan starfsöryggi þeirra sem kjósa að fara í fæðingarorlof. Þessi ákvörðun grefur því undan hugmyndum um jafnrétti og kvenfrelsi sem liggja að baki fæðingarorlofslögunum.“

Framsóknarkonur álykta einnig

Stjórn Landsambands framsóknarkvenna hefur einnig sent frá sér ályktun vegna meðhöndlun þingflokks VG á Guðfríði Lilju. Lýsa framsóknarkonur yfir vanþóknun á ákvörðun meirihluta þingflokks VG að víkja Guðfríði Lilju úr embætti þingflokksformanns við endurkomu hennar úr fæðingarorlofi.

Síðan segir orðrétt í ályktun framsóknarkvenna:

„Ákvörðunin er ekki síst dapurleg í ljósi þeirrar skyldu sem þingmenn og þingflokkar hafa að ganga á undan með góðu fordæmi, meðal annars í jafnréttismálum. Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu hefur nú þegar lýst því yfir að aðgerðin sé á gráu svæði og það sé slæmt þegar konum fækki í áhrifastöðum. Stjórn Landssambands framsóknarkvenna tekur undir þau orð.

Það vekur furðu að þingflokkur stjórnmálaafls sem sýnt hefur sig sem einn helsta talsmann raunverulegs jafnréttis skuli ekki ástunda þau vinnubrögð sem boðuð eru. Það er ekki til þess fallið að öðlast traust almennings að segja eitt en gera annað.

Það er grundvallaratriði í jafnréttismálum að konur jafnt sem karlar geti gengið að stöðu sinni vísri við endurkomu úr fæðingarorlofi. Stjórn Landssambands framsóknarkvenna harmar að með aðgerð sem þessari er ekki stuðlað að því að Alþingi Íslendinga sé fjölskylduvænn vinnustaður þegar þingmenn sem fara í fæðingarorlof geta átt það á hættu að missa fyrri stöðu eða embætti við það að eignast börn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert