ESA býst við svari frá Íslandi

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) segist  nú gera ráð fyrir að svör berist fljótlega frá Íslandi við áminningarbréfinu sem stofnunin sendi þann 26. maí 2010 í ljósi þess að Íslendingar höfnuðu Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. 

Fram kemur á heimasíðu ESA, að stofnunin muni kynna sér andsvör íslenskra stjórnvalda áður en frekari skref verði tekin í málinu.

Komi ekkert fram í svörum íslenskra yfirvalda, sem hnekki frumniðurstöðu ESA, muni stofnunin senda frá sér rökstutt álit um brot Íslands á skyldum sínum samkvæmt EES samningnum. Íslandi yrði veittur tveggja mánaða frestur til að bregðast við rökstudda álitinu. Geri Ísland það ekki muni ESA vísa málinu til EFTA dómstólsins.

Í áminningarbréfinu í maí í fyrra lýsti ESA þeirri skoðun,  að Ísland hafi brotið gegn Evróputilskipun um innstæðutryggingar  með því að gera greinarmun á innistæðueigendum í íslenskum útibúum bankanna og útibúum þeirra erlendis þegar gripið var til neyðarráðstafana í kjölfar bankahrunsins í október 2008. 

Taldi ESA, að Ísland væri skuldbundið til að tryggja greiðslu á lágmarkstryggingu  til breskra og hollenskra sparifjáreigenda, 20.000 evrur hverjum, í kjölfar falls Landsbankans.

Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.
Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert