Ferill Icesave-deilunnar fyrir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstólnum mun taka marga mánuði, jafnvel ár, að mati Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors við Háskóla Íslands.
Nú þegar þjóðin hefur hafnað Icesave-samningunum við Hollendinga og Breta er næsta skref fyrir íslensk stjórnvöld að svara áminningarbréfi ESA frá því í maí í fyrra, eins og fram hefur komið í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar.
„Síðan mun ESA liggja yfir þeim gögnum sem stofnuninni berast og mun svo annaðhvort hætta afskiptum af málinu eða gefa út svokallaða rökstudda ákvörðun, sem er endanleg niðurstaða ESA.“ Stefán segir að verði ákvörðun ESA Íslandi í óhag geti hún byggst á tvenns konar forsendum, sem komið hafa fram í áðurnendu áminningarbréfi, annars vegar því að Íslandi beri að ábyrgjast greiðslur úr innstæðutryggingarsjóðnum og hins vegar að innstæðueigendum hafi verið mismunað með ólögmætum hætti. Ísland mun svo fá ákveðinn frest til að bregðast við ákvörðun ESA og bæta ráð sitt.
Langt og flókið ferli
„Fari svo að ákvörðun ESA verði okkur í óhag og stofnunin telur ekki að Ísland hafi brugðist rétt við henni, er næsta skref að ESA höfðar mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. Í slíkum málarekstri geta alls kyns aðrir aðilar skilað inn greinargerðum, eins og Evrópusambandið sjálft og einstök aðildarríki, en einu aðilar dómsmálsins eru ESA og Ísland. EFTA-dómstóllinn getur sýknað íslenska ríkið og þá er málinu lokið, en dæmi hann Íslandi í óhag fer í gang ákveðið ferli. Dómar EFTA-dómstólsins eru viðurkenningardómar, sem segja að viðkomandi ríki hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum og tilgreina í hverju þau brot eru fólgin. Ef við gefum okkur að Íslandi hafi borið að ábyrgjast 20.800 evra innstæður þá mun dómstóllinn segja það í sínum forsendum. Dómurinn er bindandi að þjóðarétti, en engin ákvæði eru til staðar til að fullnægja dómnum, engar sektir eða svoleiðis. Því mun hvíla á Íslandi sú skylda að fullnægja skuldbindingum okkar og það mun Ísland gera. Það er hins vegar annað mál að skuldbindingarnar eru ekki ljósar í öllum atriðum, eins og til dæmis hvað varðar gjalddaga, vexti og kostnað.“
Stefán segir að falli dómur gegn Íslandi sé það Íslands að skilgreina þessar skuldbindingar og það þurfi að gera í góðri trú. Fallist ESA á þær skilgreiningar er málinu lokið, en ef ekki getur sami ferill hafist að nýju.
Hugsanleg bótaskylda
„Hér erum við samt aðeins að tala um afleiðingar þess ef EFTA-dómstóllinn telur íslenska ríkið eiga að bera ábyrgð á innstæðutryggingakerfinu. Ef hann telur að Ísland hafi beitt mismunun flækist málið. Þá þarf að reikna út í hvaða stöðu Bretar og Hollendingar hefðu verið ef þeir hefðu verið í sömu stöðu og Íslendingar. Það þarf að reikna út tjón og bætur. Bæturnar gætu verið umtalsverðar en þær gætu einnig átt að vera engar,“ segir Stefán.