Fréttaskýring: Fylgdu ekki Bjarna

Bjarni Benediktsson útskýrir afstöðu sína til samninganna á fundi í …
Bjarni Benediktsson útskýrir afstöðu sína til samninganna á fundi í Valhöll.

Það mun skýrast á næstu vikum og mánuðum hvort kosningin um Icesave hefur einhverjar pólitískar afleiðingar innan Sjálfstæðisflokksins. Fyrir liggur að mikill meirihluti sjálfstæðismanna átti ekki samleið með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í málinu.

„Ef það er hægt að draga einhverja ályktun af þessari niðurstöðu er það þá helst að menn eiga ekki að fara gegn samþykktum landsfundar,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, þegar hún var spurð hvaða lærdóm sjálfstæðismenn gætu dregið af niðurstöðunni. Hún vísar þar til afdráttarlausrar andstöðu landsfundarins við „löglausar kröfur Breta og Hollendinga í Icesave-málinu“.

Bjarni stóð að því með öðrum stjórnmálaleiðtogum að gerð yrði ný tilraun til að ná samningum við Breta og Hollendinga og þegar niðurstaðan lá fyrir og málið var lagt fyrir Alþingi lýsti hann sig samþykkan samningnum. Það sama gerðu 10 aðrir þingmenn flokksins, fjórir greiddu atkvæði gegn lögunum og einn sat hjá.

Skoðanakönnun sem Stöð tvö gerði nokkrum dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna benti til að um 75% sjálfstæðismanna ætluðu að segja nei. Með hliðsjón af því að kannanir benda til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærsti flokkur þjóðarinnar má segja að þessi mikla andstaða við málið meðal sjálfstæðismanna hafi ráðið úrslitum um að samningnum var hafnað.

Sú spurning hlýtur að vakna hvort afstaða Bjarna í Icesave-málinu hefur áhrif á pólitíska stöðu hans innan Sjálfstæðisflokksins. Margir flokksmenn voru honum reiðir fyrir að taka þessa afstöðu. Spurningin núna er kannski hvernig þessi óánægja brýst út?

„Það segir manni oft mikið hvernig menn bregðast við í sigri sínum frekari en ósigri,“ sagði einn stuðningsmanna Bjarna þegar hann var spurður hvernig hann héldi að þeir sem börðust harðast gegn samningnum myndu bregðast við. Hann sagðist hins vegar telja stöðu Bjarna trausta og segist ekki sjá hver í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eða í forystusveit hans ætti að geta ógnað honum.

Landsfundur næsta vetur

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur enga ákvörðun tekið hvenær næsti landsfundur flokksins verður haldinn. Haldinn var aukalandsfundur á síðasta ári, en í lögum flokksins segir að halda skuli landsfund að jafnaði á tveggja ára festi. Dæmi eru um að þrjú ár hafi liðið milli landsfunda. Sennilegast er að næsti landsfundur verði haldinn í haust eða næsta vor.

Á síðasta landsfundi bauð Pétur H. Blöndal alþingismaður sig fram á móti Bjarna í formannskjöri, en Bjarni sigraði nokkuð örugglega. Pétur taldi nauðsynlegt að það færi fram mæling á styrk formannsins og það væri best gert með kosningu. Algengast er hins vegar að formaður Sjálfstæðisflokksins fá ekki mótframboð á landsfundi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert