Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, og Michel Barnier, sem fer með málefni innri markaðar í framkvæmdastjórn ESB, segja í sameiginlegri yfirlýsingu að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardag hafi engin áhrif á aðildarviðræður Íslands við sambandið.
Í yfirlýsingunni taka þeir Füle og Barnier fram, að framkvæmdastjórn ESB styðji viðræðurnar við Ísland af heilum hug. Jafnframt leggja þeir áherslu á að framkvæmdastjórnin fylgist náið með þróun mála.
Á vefnum europolitics.info er haft eftir talskonu Füles, að Ísland verði að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum til að fá aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar sé litið á Icesave-málið sem tvíhliða mál milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar.