Kostnaður vegna samninganefndar í Icesave-málinu er samtals 369,2 milljónir króna. Kostnaður við fyrri samninganefnda er 77,5 milljónir. Kostnaður við sölu Landsbankans nam hins vegar 334 milljónir á verðlagi þessa árs.
Þetta kom fram í svari Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni alþingismanni á Alþingi í dag.
Björn Valur spurði hver hefði verið kostnaður ríkissjóðs við að selja Landsbankann. Hann sagði eðlilegt fá upp á borðið kostnað sem lagt var í við að selja þennan banka á sama tíma og menn veltu fyrir sér kostnaði ríkissjóðs við að leysa Icesave-málið sem hófst vegna einkavæðingar bankans.
Steingrímur upplýsti að samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar hefði salan á Landsbankanum árið 2003 kostað ríkissjóð 204 milljónir króna, en á verðlagi dagsins í dag væru þetta 334 milljónir. Þetta væri um 1,1% af söluandvirði bankans. Þá væri ótalinn ýmis kostnaður sem hefði lent á Landsbankanum vegna sölunnar.
Steingrímur sagði að kostnaður við samninganefndina í Icesave-málinu hefði numið 369,2 milljónum króna. Þar af hefðu 132,5 milljónir farið til innlendra lögfræðiskrifstofa, 233,6 milljónir til erlendra lögfræðiskrifstofa og innlendur kostnaður væri 3,1 milljón. Inn í þessari tölu væri ekki kostnaður Alþingis við málið. Steingrímur bætti við að kostnaður við Icesave-samninganna á fyrri stigum væri 77,5 milljónir.
Steingrímur sagði að til Cleary Gottlieb Steen & Hamilton sem er lögmannsstofa Lees Buchheits, formanns samninganefndarinnar, hafa verið greiddar 86,3 milljónir króna. Eru þar meðtalin laun annarra starfsmanna stofunnar en Buchheits, ferðakostnaður og virðisaukskattur.
Greiddar hafa verið 52 milljónir króna til lögmannsstofunnar Ashurst og lögmannsstofan Hawkpoint Partners hefur fengið greiddar 143 milljónir króna vegna sérfræðiaðstoðar. Hawkpoint Partners Ldt. hefur fengið greiddar 38 milljónir fyrir sérfræðiráðgjöf.
Júris, sem er lögmannsstofa Lárusar Blöndals, fékk greidda 18,1 milljón króna. Landslög, sem er lögmannsstofa Jóhannesar Karls Sveinssonar, hefur fengið greiddar 11,2 milljónir.
Ráðuneytisstjórarnir Guðmundur Árnason og Einar Gunnarsson fengu ekki sérstaklega greitt fyrir störf sín í samninganefndinni.
Björn Valur sagði í umræðunum að það hefði verið krafa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem stóðu að sölu Landsbankans, að skipuð yrði ný samninganefnd með erlendum sérfræðingum til að semja um málið.
Þessir flokkar bæru því ábyrgð á þeim kostnaði sem hlutist hefði af sölunni og tilraunum til að leysa málið, en þessi kostnaður samtals væri um 800 milljónir króna.