Misjöfn viðbrögð breskra blaða

Kjósendur í Ráðhúsi Reykjavíkur í á laugardag.
Kjósendur í Ráðhúsi Reykjavíkur í á laugardag. mbl.is/Árni Sæberg

Viðbrögð breskra dagblaða við niðurstöðu Icesave-atkvæðagreiðslunnar á laugardag hafa verið nokkuð misjöfn. Stjórnmálaritstjóri Daily Telegraph segir að Bretar eigi að skammast sín fyrir að níðast á Íslandi en Daily Mirror segir, að breskir ráðherrar eigi að krefjast Icesave-peninganna með vöxtum.

Peter Oborne, stjórnmálaritstjóri Telegraph, segir að eitt helsta vandamál þeirra Georges Osbornes, fjármálaráðherra, og Dannys Alexanders, aðstoðarfjármálaráðherra, sé að þeir þurfi á hverjum degi að fást við óreiðuna sem þeir erfðu frá Alistair Darling og Gordon Brown.

Þeim félögum hafi þó tekist nokkuð vel að fást við þetta en nokkur slæm mistök hafi verið gerð. Darling hafi gert slæm mistök þegar hann lét breska ríkið greiða reikningseigendum í Icesave-netbankanum innistæður sínar og nú hafi Alexander bætt gráu ofan á svart með því að hóta að draga Íslendinga fyrir dómstóla. Slíkt sé algerlega þarflaust.

„Ég vona að Íslandi takist að verjast þessari atlögu Alexanders og að Ísland sigri  fyrir dómstólunum. Moody's er sagt hóta að lækka lánshæfiseinkunn Íslands enn frekar vegna hefnigirni fjármálaráðuneytisins okkar. Við ættum að skammast okkar," segir Oborne.

Sami yfirgangurinn og í þorskastríðinu

Tónninn er annar á leiðarasíðu Daily Mirror í dag. Þar segir, að nærri 40 ár séu liðin frá þorskastríðunum en Ísland hafi ekkert breyst. Þeir hafi þá farið rænt fiskimiðum Breta á Norður-Atlantshafi, siglt á breska togara og skorið ítrekað á net þeirra.

„Nú eru þeir með sama yfirganginn í garð Breta vegna peninga, sem töpuðust þegar bankakerfið þeirra hrundi og hafa tvívegis neitað í þjóðaratkvæðagreiðslu að endurgreiða féð. Ráðherrarnir okkar verða að sýna samskonar staðfestu og leggja áherslu á, að við viljum fá peningana okkar til baka... með vöxtum," segir blaðið.

Grein Peters Obornes

Leiðari Daily Mirror

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert