Bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal segir í ritstjórnargrein í Evrópuútgáfu sinni, að íslenskir kjósendur hafi, með niðurstöðunni í Icesave-atkvæðagreiðslunni á laugardag sýnt uppörvandi staðfestu á sama tíma og Evrópa reyni að greiða úr því hvaða réttindi og skuldbindingar bankar og lánardrottnar þeirra hafi.
„Land ber aðeins ábyrgð á uppblásnu bankakerfi sínu upp að ákveðnu marki. Árið 2008 tóku ríkisstjórnir Breta og Hollendinga þá afstöðu, að það væri of áhættusamt fyrir eigin bankakerfi ef sparifjáreigendur í þessum löndum brenndu sig á íslenskum bönkum. Löndin höfðu rétt á því að taka þessa afstöðu, hvort sem hún var rétt eða röng. En það var of langt gengið að skilja Íslendinga eftir með reikninginn. Íslenskir kjósendur hafa í það minnsta tvívegis lýst þeirri skoðun," segir blaðið.