Ólíklegt er að áminningarbréfi Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna Icesave verði svarað fyrr en eftir páska. Utanríkismálanefnd fór yfir undirbúning að svarinu með fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra í kvöld.
„Nefndinni var gerð grein fyrir efnistökum sem væntanlega yrðu í þessu svari og farið var yfir það en það eru ekki komin nein drög að því ennþá“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar.
Árni Þór segist ekki eiga von á að svarið verði sent fyrr en eftir páska. „Stjórnvöld þurfa að ná einhverju samkomulagi um það við ESA vegna þess að frestirnir eru löngu liðnir. Ég reikna með að efnahags- og viðskiptaráðuneytið muni eiga einhver samskipti við ESA um það,“ segir hann.