Stjórn Félags flugmálastarfsmanna ríkisins gagnrýnir harðlega ákvörðun Isavia ohf. að framvegis skuli allir starfsmenn Isavia láta af störfum þegar þeir hafa náð 67 ára aldri.
Í ályktun sem FFR hefur sent frá sér er Ísavía hvatt til að draga ákvörðun sína frá 1. apríl sl. um starfslokastefnu og starfsaldurslok til baka. Er ákvörðunin átalin og henni mótmælt harðlega. „Að áliti valinkunnra lögmanna, sem FFR hefur leitað til, koma fram verulegar efasemdir um lögmæti þessa og gæti það skapað Ísavia ohf. bótaskyldu gagnvart okkar félagsmönnum,“ segir í ályktun stjórnar félagsins.
Segist stjórn FFR einnig harma tímasetningu þessarar ákvörðunar í ljósi þess að kjarasamnignar eru lausir. Þetta sé mál sem taka skuli upp í komandi kjarasamningum.
FFR bendir á að stór hluti starfsmanna Isavia ohf. eru fyrrverandi starfsmenn Flugmálastjórnar „Við ráðningu, gengu þeir til starfa samkvæmt þeim réttindum og skyldum, sem í gildi voru um starfslok opinberra starfsmanna,“ segir í ályktun FFR.
Jóhannes Long, formaður FFR, segir að starfsmenn séu mjög óánægðir með ákvörðun Isavia. Flestir starfsmennirnir hafi hafið störf hjá ríkinu þegar þeir réðu sig til starfa hjá Flugmálastjórn og gengu út frá að geta unnið þar til sjötugsaldri væri náð. Langflestir starfsmenn félagsins hefðu notfært sér það. „Við viljum að menn eigi áfram val um að geta unnið til sjötugs,“ segir hann.
Breytingin tekur að stærstum hluta gildi á næsta ári að sögn Jóhannesar. Hann segir að þetta mál verði örugglega tekið upp í kjaraviðræðum á næstunni.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að enn sé verið að fara yfir þetta mál innan Isavia og á meðan svo er geti félagið ekki tjáð sig um gagnrýni FFR.