Kjaraviðræðurnar hanga á bláþræði. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði eftir fund samninganefnda ASÍ og SA sem er nýlokið, að staðan væri mjög þung. Sjávarútvegsmálið þvældist enn fyrir í viðræðunum.
Ákveðið var á fundinum í kvöld að samninganefndirnar hittist aftur kl. 13 á morgun.
„Við erum ekki að sjá að það sé verið að leggja okkur til það efni að við getum farið að binda okkur í þrjú ár,“ sagði Gylfi en forysta SA vill að áfram verði reynt að ná samkomulagi um kjarasamninga til þriggja ára.
Forystumenn ASÍ og SA hittu ráðherra ríkisstjórnarinnar síðdegis og komu í beinu framhaldi af því saman til samningafundar í húsnæði Ríkissáttasemjara.
„Það er ljóst að það er ekki verið að koma neitt verulega til móts við okkur í því sem við teljum mikilvægt,“ segir Gylfi og nefnir m.a. kröfur verkalýðshreyfingarinnar um hækkun bóta, jöfnun lífeyrisréttinda, breytingu á skattleysismörkunum o.fl.
„Það standa líka ennþá veigamikil atriði útaf gagnvart atvinnurekendum,“ segir hann.
Launþegahreyfingin vill að gengið verði frá skammtímasamningum og að launþegar geti sem fyrst fengið einhverjar launahækkanir. „Það er alveg klárt að með góðu eða illu þá munum við tryggja launahækkanir á þessu ári,“ segir Gylfi.