Embættismenn í Brussel hafa áhyggjur af því að útkoma þjóðaratkvæðagreiðslnanna tveggja í Icesave-deilunni skapi það sem þeir telja slæmt fordæmi í Evrópu. Er þá horft til baráttu almennings á Írlandi, í Portúgal og Grikklandi gegn því að lífskjör verði rýrð vegna skuldakreppu ríkjanna.
Þetta fullyrðir Leigh Phillips, blaðamaður hjá EU Observer í Brussel, en hann ræðir reglulega við embættismenn hjá Evrópusambandinu um aðildarumsókn Íslands.
Haft var eftir ráðgjafa forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni í Morgunblaðinu í gær að hollenska stjórnin myndi ekki samþykkja ESB-aðild Íslands nema orðið yrði við Icesave-kröfunum. Tony van Dijck, talsmaður Frelsisflokksins í Hollandi, tekur undir þetta og segir að hollenska stjórnin eigi að beita áhrifum sínum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ESB til að þrýsta á greiðslur frá Íslandi. Líkti hann Íslandi við „reyttan kjúkling“.