Reynsluleysi á þátt í töfunum

Sanddæluskipið Skandia.
Sanddæluskipið Skandia.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að nokkru leyti megi kenna reynsluleysi verktakans sem tók að sér að dýpka Landeyjahöfn, að ekki sé búið að opna höfnina.

 Þetta kemur fram í bréfi sem Ögmundur sendi Helga Hjálmarssyni, en bréfið er birt á vef Eyjafrétta.   

„Samkvæmt upplýsingum sem ég hef hafa tafir orðið á opnun hafnarinnar í meginatriðum af fjórum ástæðum: 

• Í fyrsta lagi hefur tíðarfar verið erfitt. Í útboðsgögnum var miðað við að dýpkunarskip gæti við ítrustu aðstæður verið að störfum í allt að 2ja metra ölduhæð en segja má að meiri ölduhæð hafi verið viðvarandi frá miðjum janúar.

• Í öðru lagi hefur skipulags- og reynsluleysi háð verktakanum. Tengingu á nauðsynlegum búnaði til að fylgjast með stöðu dýpkunar hefur ekki verið sinnt með þeim afleiðingum að sums staðar hefur verið yfirdýpkað. Vegna þess hafa tapast nokkrir dagar. Eftirgangsmuni þurfti til áður en dýpkun hófst í hafnarmynninu. Fyrir dýpkun í hafnarmynninu var þar svo grunnt að verktaki þurfti að miða vinnu sína við sjávarföll og kostaði það meira tímatap. Eftir þessa byrjunarörðugleika hafa skipstjóri og áhöfn öðlast reynslu og meiri hæfni til að dýpka í hafnarmynninu. Undanfarið hefur áhöfn Skandia lagt sig fram um að vinna við mjög erfiðar aðstæður, t.d. um síðustu helgi í ölduhæð yfir mörkum sem sett voru í útboðsgögnum.

• Í þriðja lagi hefur Skandia ekki afkastamikinn dælubúnað. Skipið er rúmlega 40 ára gamalt og afllítið miðað við það sem gengur og gerist með nýrri skip. Hins vegar er það vel byggt til að dýpka og botn skipsins sterkur auk þess sem djúprista, lengd og breidd eru heppileg fyrir Landeyjahöfn.

• Í fjórða lagi hefur þurft að fjarlægja mikið af eldgosaösku úr rennu innan hafnar. Afar tafsamt er að dæla öskunni og hefur hún dregið úr afköstum,“ segir í bréfi Ögmundar.

  Eyjafréttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert