Styrkja vernd heimildarmanna

Fjölmiðlafrumvarpið er komið úr menntamálanefnd til þriðju umræðu á Alþingi.
Fjölmiðlafrumvarpið er komið úr menntamálanefnd til þriðju umræðu á Alþingi.

Meirihluti menntamálanefndar leggur til breytingar á fjölmiðlafrumvarpinu þar sem vernd heimildarmanna fjölmiðla er styrkt enn frekar. Þetta kemur fram í framhaldsnefndaráliti sem lagt var fram á Alþingi í kvöld.

Í nefndaráliti meirihlutans segir að ástæða sé til að afmarka nánar undanþáguákvæði 3. málsgrein, 119. gr. laga um meðferð sakamála og styrkja þar með heimildarverndina enn frekar.

„Meiri hlutinn telur mikilvægt að skýra nánar þau tilvik sem geta leitt til þess að dómari beiti undanþáguákvæðinu, þannig að ljóst muni vera að því skuli ekki beitt nema í undantekningartilvikum og eingöngu þegar um er að ræða vitnisburð er ráðið getur úrslitum í dómsmálum sem tengjast alvarlegum glæpum. Meiri hlutinn vekur sérstaka athygli á því að í dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins hefur komið fram að viðskiptahagsmunir séu ekki nægjanleg rök til að aflétta heimildarvernd og leggur meiri hlutinn til að íslensk löggjöf endurspegli sams konar viðhorf með vísan til almannahagsmuna,“ segir í álitinu.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar fimm manns í fjölmiðlanefnd til fjögurra ára, samkvæmt ákvæði 8. gr. frumvarpsins. Leggur meirihlutinn til þá breytingu að einn fulltrúi í stað tveggja verði skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins og einn samkvæmt tilnefningu Blaðamannafélags Íslands.

„Með þessu er undirstrikað mikilvægi þess að í fjölmiðlanefnd sitji einstaklingar með starfsreynslu úr blaða- og/eða fréttamennsku.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert