Þurfum ekki að flýta dómsmáli

Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ómar Óskarsson

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að það væri engin ástæða fyrir Íslendinga að leggja áherslu á að flýta dómsmáli um Icesave eins og forsætisráðherra hefði sagt.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í gær að rétt væri að kanna hvort hægt væri að fá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til að bíða með að úrskurða um málið þangað til skýrist hversu mikið kæmi út úr þrotabúi Landsbankans.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að sjálfsagt væri að kanna hvort ESA væri tilbúið til að fallast á þetta.

Boðað hefur verið til fundar í utanríkismálanefnd Alþingis í kvöld þar sem ræða á um svar íslenskra stjórnvalda til ESA. Svarið hefur verið tilbúið um nokkra hríð, en beðið var með að senda það þar til þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave hefði farið fram. Jóhanna sagði að farið yrði betur yfir svarið í kvöld með nefndinni og ráðherrum í ríkisstjórninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka