Tillaga um vantraust lögð fram

Bjarni Benediktsson formaður flokksins í ræðustól á Alþingi.
Bjarni Benediktsson formaður flokksins í ræðustól á Alþingi. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að hann myndi leggja fram tillögu á Alþingi um vantraust á ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Hann sagði nauðsynlegt að boða til nýrra kosninga.

„Ríkisstjórnina skortir stuðning og ríkisstjórnina skortir traust fólksins í landinu. Hún forgangsraðar ekki í þágu Íslendinga. Hana skortir framtíðarsýn og hana skortir skilning á því að í mannauði þjóðarinnar felast verðmæti. Það eru verðmæti sem við þurfum að virkja. Það eru hagsmunir þjóðarinnar að það verði boðað til kosninga sem fyrst. Það mun tryggja traust milli þings og þjóðar við lausn þess máls sem hér er á dagskrá, en það mun ekki síður endurvekja traust á þessari mikilvægu og valdamestu stofnun landsins. Þess vegna verðum við að ganga til kosninga. Ég mun leggja fram vantrausttillögu á ríkisstjórnina í dag,“ sagði Bjarni.

Í  tillögu Sjálfstæðisflokksins er þess krafist að þing verði rofið 11. maí og boðað  til kosninga hið fyrsta.  

Tillaga um vantraust kom síðast fram á Alþingi í nóvember 2008, þegar formenn stjórnarandstöðunnar báru fram tillögu um vantraust á ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Tillagan var felld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka