Frumvarp til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands hefur verið lagt fram á Alþingi, en verði það að lögum hefði það margvíslegar breytingar á Stjórnarráðinu í för með sér. Ekki var full samstaða um málið þegar það var afgreitt úr ríkisstjórn á dögunum.
Á meðal breytinganna sem frumvarpið hefur í för með sér, verði það að lögum, er að ráðuneyti verða ekki lengur talin sérstaklega upp í lögum um Stjórnarráð Íslands. Þess í stað verður hámarksfjöldi þeirra tilgreindur, en stjórnvöld hafa hverju sinni ákvörðunarvald um hvaða ráðuneyti skuli starfrækt.
Þá er kveðið á um „skyldu ráðherra til að leitast við að samhæfa stefnu sína og aðgerðir þegar málefni og málefnasvið skarast og auk þess kveðið sérstaklega á um skyldu forsætisráðherra til að hafa frumkvæði að samhæfingu starfa ef á þarf að halda.“
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bókaði andstöðu sína við frumvarpið á fundi ríkisstjórnarinnar og áskildi sér rétt til að tala gegn því í þingflokki og á þinginu sjálfu. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, samþykkti frumvarpið með fyrirvörum.
Jón á móti stjórnarráðsfrumvarpi