Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gat ekki þegið boð Evrópuráðsins í Strassborg um að ávarpa ráðið vegna þess að hann var önnum kafinn við að bregðast við aðstæðum hér heima í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, segir að það sé rétt sem kom fram hjá vefmiðlinum Tímanum í dag, að Steingrímur hafi fengið boð frá Evrópuráðinu til að ræða um skuldsetningu ríkissjóða. Hún segir að gert hafi verið ráð fyrir að hann ávarpaði ráðið á sunnudaginn, daginn eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Á þeim tíma hafi Steingrímur verið önnum kafinn við að bregðast við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hann hafi því ekki getað þegið boðið og þeim upplýsingum hafi verið komið til Evrópuráðsins.