„Vel gert! Hvað myndu aðrir evrópskir skattgreiðendur segja ef maður spyrði þá hvort þeir ættu að bera ábyrgð á ríkisskuldum Grikklands, Írlands og Portúgals að auki,“ segir í grein ritstjóra Frankfurter Allgemeinen Zeitung, um niðurstöðu Icesave-kosninganna.
Vikublaðið Die Zeit gerir málinu einnig skil á hlutlausan hátt en á vef þess er boðið upp á athugasemdir.
„Loksins berst einhver á móti yfirráðum, kúgun og arðráni á almenningi,“ skrifar einn lesandi.
Annar ber saman Icesave-kröfuna og Versalasamningana, himinháar stríðsskaðabætur Þjóðverja vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar og elur þá von í brjósti að evrópskur almenningur rísi upp gegn þeirri kröfu að þurfa að taka byrðar hrunsins á sínar herðar, líkt og arabar hafi að undanförnu krafist lýðræðis.