Íslendingar sýndu aðdáunarverða staðfestu með því grundvallaratriði að skattgreiðendur eigi ekki að greiða skuldir fallinna einkabanka nema dómstóll komist að þeirri niðurstöðu. Þetta segir í ritstjórnargrein í vefútgáfu Financial Times í kvöld þar sem fjallað er um Icesave-kosningarnar sl. laugardag.
Icesave-deilan komi væntanlega til kasta EFTA-dómstólsins en málstaður Íslands sé góður. Skv. Evrópurétti beri ríkjum að byggja upp nægilega traust innistæðutryggingakerfi en reglurnar útiloki að ríkisábyrgð sé á innistæðunum.
Þótt íslenski tryggingarsjóðurinn hafi ekki ráðið yfir nægu fjármagni
til að geta tekist á við bankahrunið eigi það sama við um öll önnur
lönd. Það væri annaðhvort hræsni eða hugarórar, að halda því fram að
breskir eða hollenskir skattgreiðendur myndu greiða þriðjung árstekna
sinna til að bæta erlendum innistæðueigendum upp tjón þeirra undir
svipuðum kringumstæðum.
Í greininni segir að það sé ólíklegt að niðurstaða kosninganna setji áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins úr skorðum eða tvíhliða lánveitingar til Íslands. Hins vegar gætu Bretar og Hollendingar freistast til að bregða fæti fyrir aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Það yrðu sorgleg mistök ef refsa ætti landi fyrir að standanda á þeim rétti sínum að fá úrlausn á réttarágreiningi fyrir dómstólum.