Árni Þór Sigurðsson hefur ákveðið að víkja úr starfi þingflokksformanns Vinstri grænna. Hann tilkynnti þetta á fundi þingflokksins í dag og vék síðan af honum. Þingflokkurinn fundar enn. Ekki liggur fyrir hver muni taka við embætti formanns.
„Ég gerði grein fyrir þessari yfirlýsingu minni á þingflokksfundi og vék svo bara af fundinum, og vildi að þingflokkurinn gæti þá rætt framhaldið án mín. Þannig að hann situr ennþá á fundi. Ég veit ekki hver lendingin verður í því máli,“ segir Árni Þór í samtali við mbl.is.
Árni Þór var á sunnudag kjörinn þingflokksformaður í stað Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Hún var í fæðingarorlofi og Árni Þór gegndi formennskunni á meðan.
Í yfirlýsingu sem Árni Þór hefur sent frá sér, segir að honum þyki miður að þetta mál hafi að ósekju verið persónugert og tengt bæði kvenfrelsisstefnu flokksins og lögum um fæðingarorlof. Sú umræða sé skaðleg flokknum og þar með óviðunandi.
„Það hefur aldrei hvarflað að mér að vera í einhverju embætti bara embættisins vegna. Þannig að ég ákvað að gera þetta og lít svo á að það sé lóð af minni hálfu á vogarskál einhverra sátta í málinu innan þingflokksins. Og vona að aðrir taki í þá hönd,“ segir Árni Þór í samtali við mbl.is.
Aðspurður gerði hann formanni og varaformanni VG grein frá ákvörðun sinni í gær.